9.flokkur 2011
4.dagur
Vakið kl.9:30. Lengra útsof vegna náttfatapartýs í gærkvöldi og stelpurnar fóru seinna að sofa en venjulega.
Morgunverður kl.10. Sparimorgunverður þar sem boðið var upp á kókópuffs ásamt öðru morgunkorni. Ástæðan fyrir því að boðið var upp á örlitla tilbreytingu er sú að eftir að þærs, sem ekki höfðu komið hingað áður, höfðu gist þrjár nætur í Vindáshlíð geta þær formlega kallað sig Hlíðarmeyjar.
Í staðinn fyrir venjulega morgunstund fóru stelpurnar í mismunandi hópa til þess að undirbúa kirkjustund eftir hádegi. Þetta voru leik-, söng-, skreytinga og bænaundirbúningshópur. Þetta gekk mjög vel fyrir utan óhapp í íþróttahúsinu þar sem allt í einu fóru að heyrast skruðningar í rörum. Það hafði komist loft inn á hitalögn og eitt lítið rör hreinlega losnaði. Engin stelpa skaðaðist en þær urðu að vonum skelkaðar vegna þessara skruðninga í rörunum. Starfsfólk brást fljótt við og tæmdi húsið á örfáum sekúndum og tóku rafmagn af. Vatnið er hitað með rafmagni.
Hádegismatur var kl.13 og fengu stelpurnar lasanja og salat. Eldhúsfólkið okkar fékk mikið lof fyrir frábæran mat.
Kirkjustund var kl.14 og var gengið í skrúðgöngu til kirkju á meðan kirkjuklukkur klingdu. Þessi stund var nánast alveg í höndum stelpnanna og tókst mjög vel. Stelpunum þótti notalegt að koma inn í kirkjuna sem heitir Hallgrímskirkja í Kjós.
Kirkjukaffi var svo kl.15:30 og í boði voru kærleikskúlur (kókóskúlur) sem einn stelpnahópurinn hafði tekið að sér að búa til og fleira gott bakkelsi að hætti bakarans.
Við tóku svo íþróttir, brennó og undirbúningur kvöldvöku sem var í höndum tveggja herbergja.
Kvöldmatur kl.18:30. Skyr og brauð með ýmsu áleggi.
Kvöldvaka kl.20. Eins og áður hefur komið fram voru tvö herbergi sem sáu um undirbúning og fannst mér þeim takast gríðar vel upp.
Kvöldkaffi, róleg stund í stustofu þar sem stelpurnar heyrðu söguna um Móse.
Ró um kl.23
Bestu kveðjur
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona