9.flokkur
3.dagur
Að venju var vakið kl.9:00. Morgunmatur kl.9:30 sem samanstóð af hafragraut, morgunkorni, mjólk, súrmjólk, púðursykri og rúsínum. Það kom mér heilmikið á óvart að langflestar stelpurnar borðuðu hafragraut og er það að sjálfsögðu frábært því betri undirstöðu er vart hægt að fá.
Morgunstund þar sem við ræddum um sköpunina og það að hún er okkur falin og því er mikilvægt að fara vel með umhverfið og nýta það á sanngjarnan hátt.
Hádegismatur sem borðaður var úti í blíðunni. Grillaðar pylsur með öllu og sólberjasafi.
Um kl.14 var ratleikur sem fór fram úti og inni. Á síðustu ratleiksstöðinni áttu stelpurnar að undirbúa stutt atriði sem var svo sýnt á kvöldvöku.
Kaffi kl.16. Kökur og kanellengjur
Eftir kaffi voru brennóleikir, íþróttir og frjáls leikur. Margar stelpur nýttu þennan tíma til þess að æfa atriðin fyrir kvöldið.
Kvöldmatur kl.18:30. Gríðarlega vinsæll grjónagrautur og brauð.
Kvöldvaka um kl.20. Vegna veðurs var kvöldvakan úti við varðeld. Dásamleg stemmning, mikill söngur, flott atriði, grillaðir sykurpúðar, gleði og gaman.
Kvöldkaffi mað ávöxtum og mjólkurkexi.
Róleg stund í setustofu þar sem stelpurnar fengu að heyra söguna um góða hirðinn.
Stelpurnar héldu að sjálfsögðu að nú væri komið að því að fá bænakonurnar inn til sín og leggjast til hvílu. En aldeilis ekki, því komið var að náttfatapartýinu heimsfræga. Starfsfólk Vindáshlíðar er frægt fyrir að slá upp æðislegum náttfatapartýum og það var ekki af verri endanum í þetta skiptið. Allir í náttfötunum og mikil gleði.
Eftir að sterfsfólkið var búið að spenna stelpurnar upp kom það í minn hlut að róa þær niður. Það gekk reyndar mjög vel þar sem þetta eru svo flottar stelpur. Ég las fyrir þær sögu sem heitir Þú ert frábær og er eftir Max Lucado. Eftir lesturinn söng starfsfólkið stúlkurnar inn í svefninn. Klukkan var orðin mjög margt og því ákveðið að þær fengju að sofa hálftíma lengur.
Flestar sofnaðar um miðnætti.
Bestu kveðjur
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona