9.flokkur 2011
1.dagur
Það voru kátar og spenntar stelpur sem lögðu af stað upp í Vindáshlíð frá Holtaveginum kl. 10. Fæstar hafa verið áður og er þetta því alveg ný upplifun fyrir þær.
Þegar komið var í Hlíðina tók bráðhresst starfsfólk á móti þeim, skráði þær í herbergi og sýndi þeim og leiðbeindi um staðinn. Þær komu sér svo fyrir á herbergjunum sínum og skoðuðu sig um fram að matartíma sem var kl. 12:30. Þá fengu þær kjúklingasúpu og smurt brauð sem þær gæddu sér á af bestu lyst.
Verðrið lék við okkur og farið var í gönguferð klukkan tvö að litlum fossi í nágrenni Vindáshlíðar sem kallaður er Brúðarslæða vegna lögunnar sinnar. Þar busluðu stelpurnar í læknum sem rennur frá fossinum og skemmtu sér vel. Einnig var staldrað við hjá einu og einu berjarlyngi og hrúgað í sig krækiberjum sem eru komin vel á veg í þroska. Þessi ferð var frábær í alla staði og brostu stelpurnar sínu blíðasta og margar með dásamlegt krækiberjabros á vör.
Þegar komið var til baka fengu stelpurnar að drekka. Í boði voru nýbakaðar brauðbollur, kex og appelsínusafi.
Þá var komið að hinni víðfrægu brennókeppni sem fram fór í íþróttahúsi Vindáshlíðar. Þar kepptu öll herbergi sín á milli og mun keppnin halda áfram út vikuna þar til eitt herbergi er eftir sem mun þá hampa þeim titli að verða brennómeistarar Vindáshlíðar í 9.flokki 2011. Einnig tóku stelpurnar þátt í ýmsum öðrum íþróttum eins og húshlaupi og skotbolta.
Kvöldmatur var kl.18:30 þar sem plokkfiskur var í boði. Stelpurnar borðuðu mjög vel.
Kvöldvakan tókst vel þar sem farið var í leiki úti og inni. Eftir hana var boðið upp á kvöldkaffi þar sem í boði voru ávextir, mjólk og mjólkurkex.
Að lokum var sest inn í setustofuna þar sem höfð var róleg stund fyrir svefninn. Mikið sungið og sögð biblíusagan um Mörtu og Maríu.
Í boði var að fara út að læk að bursta tennur og fannst mörgum stelpum það spennandi kostur.
Í Vindáshlíð er hafður sá háttur á að hvert herbergi fær bænakonu. Það er starfsstúlka sem kemur inn til þeirra rétt fyrir svefninn, segir þeim sögu, spjallar og biður kvöldbæn með stelpunum. Þessi starfsstúlka er þeirra alveg út vikuna og hefur þetta gefist vel. Með þessu móti er auðveldara að gefa hverri og einni stelpu gaum.
Þrátt fyrir mikinn spenning og gleði tókst stelpunum að sofna á skikkanlegum tíma þar sem flestar voru sofnaðar um kl.23
Mig langar til að benda á að hægt er að nálgast myndir á heimasíðu KFUM og K.
Bestu kveðjur
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona