Föstudagur 5. ágúst 2011
Það rigndi í morgun í Vindáshlíð. Í morgunmat voru stúlkurnar prúðar og gekk morgunstund vel. Auður fjallaði um hvernig við getum kynnst Guði á marga vegu – hvernig við upplifun hann hver og en á sinn hátt. Eftir hlýlega morgunstund tóku allar þátt í stigahlaupi og í hádegismat skemmtu foringjar með dansi eftir þema dagsins sem var tíska ólíkra tímabilia (60´s, hippar, 80´s ofl).
Eftir hádegi fóru allar í íþróttahúsið þar sem hvert herbergi keppti í „Vindáshlíð next topmódel“. Stúlkurnar hönnuðu kjól úr svörtum ruslapokum og sýndu frumleg tilþrif í hárgreiðslu og snyrtingu – mögnuð útkoma eins og sjá má á myndunum.
Eftir kaffi var fótboltakeppni sem tók snöggt af enda komið rok og rigning. Í kvöldmatinn var skyr og brauð. Kvöldvakan hófst með hressilegri söngstund en hægt og rólega hurfu herbergin eitt og eitt í ævintýraför um húsið þar sem gestir biðu á ólíklegustu stöðum – persónur úr kvikmyndum sem höfðu frá ýmsu að segja. Að loknu kvöldkaffi og kvöldstund í setustofunni var gengið til náða. Allar stúlkur voru komnar í draumaheima rétt um miðnætti.