Seinni hluti þessa dags hefur verið ótrúlega skemmtilegur. Um klukkan 17 (en enginn veit hvað tímanum líður í dag því allar klukkur eru í felum) hófst "survivor-leikur". Myndaðir voru 8 manna ættbálkar sem voru bundnir saman á höndum fjórar og fjórar saman. Ættbálkarnir leiddust á milli sex stöðva sem voru t.d. uppi á Sandfelli, niðurfrá við hliðið og á stiganum við Pokafoss. Allir hópar höfðu með sér nesti, unnu markvisst saman og sömu lög, leystu Sudoku þrautir, svöruðu 100 spurningum, bjuggu til fána hópsins og hönnuðu viðeigandi andlistmálningu ættbálksins. Allir hópar voru komnir í hús um kl. 21 og hófst þá morgunmatur. Í miðjun morgunmat kom frægur gestur – „Páll Óskar Hjálmtýsson“. Hann var glæsilegur í rauðum jakkafötum og söng tvö lög; Gordjöss og Allt fyrir ástina. Stemmningin var frábær og aðdáun skein úr hverju andliti.
Eftir morgunmatinn fórum við fylktu liði út í skóg þar sem búið var að kveikja varðeld. Ættbálkarnir fluttu allir sín frumsömdu lög og svo sungum við líka allar saman. Síðan fóru allar inn í matsal þar sem beið heitt kakó og kex. Í kjölfarið var notarleg stund í setustofu þar sem við heyrðum hugleiðingu kvöldsins. Það var því ekki fyrr en um hálf eitt í nótt sem þreyttar en ynnilega glaðar stúlkur fóru í rúmið og voru fljótar að svífa inn í draumaheima. Laugardegi á röngunni var lokið.