Fimmtudagur 4. ágúst 2011
Morgunsól í bítið í Vindáshlíð, léttskýjað allan daginn og rómantísk kvöldsól í lok dags. Stúlkurnar sváfu vært til 9:30 enda þreyttar eftir náttfatapartí gærkvöldsins. Eftir morgunmat var biblíulestur þar sem við heyrðum að Guð skapaði okkur allar, elskar okkar allar eins og við erum – fullkomnar og fallegar. Broskeppnin og vinabandagerð var í setustofu fram að mat en þá fengum við grillaðar pylsur. En ekkert var slegið af stuðinu. Eftir hádegi fórum við í hermannaleik – magnaðan leik sem byggir á vísbendingum og reynir á hugmyndaflug, samvinnu hópa og snarræði. Eftirmiðdagshressing var kærkomin og svo var landakynning sem fólst í að stúlkunum var skipt í hópa sem fengu kynningu á einu ríki heims og fengu svo kvöldmat í takt við neysluvenjur í því ríki. Eftir þann kvöldmat kom að hinum raunverulega kvöldmat – hamborgurum sem tekið var af gleði. Í kvöld var horft á bíómynd sem fékk brosandi háa einkunn á meðan stúlkurnar mauluðu poppkorn. Í kvöldkaffi og á kvöldstund sást berlega að stúlkurnar eru orðnar þreyttar enda gekk vel að fá ró í skálann. Enn einn frábær dagur að kvöldi kominn.