Næsta þriðjudag, 9.ágúst, hefst Listaflokkur í Ölveri, og er ætlaður fyrir stúlkur á aldrinum 9-12 ára. Flokkurinn stendur yfir dagana 9.-12. ágúst.
Í Listaflokk verður boðið upp á hefðbundna sumarbúðadagskrárliði eins og útivist, íþróttir, kvöldvökur, fræðslustundir og leik, en sérstök áhersla er lögð á listir og skapandi vinnu. Meðal viðfangsefnanna verða: Stomp og taktþjálfun, dans og freestyle, leiklist og framkoma, hannyrðir og föndur, kökuskreytingar, tónlist, myndlist og skúlptúrgerð. Markvisst er unnið með jákvæða sjálfsmynd og það að virkja og benda á hæfileika hverrar og einnar.
Enn eru nokkur pláss laus í þennan spennandi flokk!
Listaflokkur er nú haldinn í þriðja sinni undir stjórn listakonunnar Margrétar Rósar Harðardóttur sem lokið hefur mastersgráðu í skapandi samvinnulistum frá Listaháskólanum í Bremen, en við hlið Margrétar munu starfa skapandi starfsstúlkur sem hafa áralanga reynslu af sumarbúðastarfinu í Ölveri.
Verð er kr.26000 og er allt eftirfarandi innifalið í verðinu: efniskostnaður, hollt og gott fæði, gisting og rútuferðir frá og til Reykjavíkur.
Brottför er kl.11 þriðjudaginn 9.ágúst frá Holtavegi 28 í Reykjavík, og áætluð heimkoma er föstudaginn 12.ágúst kl.20:30 að sama stað.
Hægt er að ganga frá skráningum í Listaflokk bæði í gegnum http://skraning.kfum.is/ og hjá Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899.