Miðvikudagur 3. ágúst 2011
Það var bjartur dagur í Vindáshlíð með ferskum vindi. Stúlkurnar voru vaktar kl. 9 og eftir morgunmat og morgunstund með biblíulestri var brennókeppni og kraftakeppni. Í dag var Disney-þema sem fólst í því að starfsstúlkur eru allar klæddar upp sem einhver persóna úr Disney-kvikmyndum. Það tók glöggar stúlkur ekki langan tíma að átta sig á hver var hvað. Í hádegismat var blómkálssúpa og brauð. Eftir matinn var „lífsganga“ um svæðið þar sem stúlkurnar þræddu sig milli stöðva, héldu í reipi og voru með bundið fyrir augu – algert ævintýri. Eftir kaffi var áfram keppt í brennó og í kvöldmat mættu svangar stúlkur sem tóku rösklega til matar síns enda kjötbollur í boði. Kvöldvakan byggðist upp á hæfileikakeppni þar sem stjörnur skinu skært. Eftir kvöldstund í setustofu burstuðu margar tennurnar úti í læk og voru allar lagstar til svefns fyrir kl. 23.
EN hálftólf hófst náttfatapartí sem stóð í um klukkutíma. Þær dönsuðu, sungu og foringjar skemmtu. Síðan fengu þær ís á meðan Auður las sögu í setustofunni. Allar voru sofnaðar vel fyrir klukkan eitt eftir frábæran dag á frábærum stað.