Þriðjudagur 2. ágúst 2011
Flottur hópur af hressum stúlkum er nú kominn saman í Vindáshlíð. Við fórum frá Holtavegi rétt upp úr kl. 10:00 og komum í Vindáshlíð í ferskri golu og fallegri fjallasýn. Eftir skiptingu í herbergi var fljótlega hádegismatur – pylsupasta sem féll vel í kramið. Eftir hádegi var ratleikur og kynnisferð um svæðið, kaffi með nýbökuðum kökum og svo hófst húshlaup og brennókeppnin sem stendur milli herbergja allan flokkinn. Í kvöldmat var píta með innihaldi að eigin vali. Kvöldvakan var óhefðbundin með leikjum og „samhristingi“ í íþróttahúsi. Eftir kvöldkaffi og kvöldstund í setustofunni hófst „bænakonuleit“ þar sem hvert herbergi fékk vísbendingar sem þær notuðu til að spyrja starfslið spurninga sem svo leiddi þær á slóð þess hver yrði bænakona herbergisins í flokknum. Allar voru komnar í rúmið á miðnætti og fullkomin ró í hverju herbergi 20 mínútum síðar.Yndislegur fyrsti dagur og með fallegum hópi stúlkna.