Héðan af krílunum úr Ölveri er allt gott að frétta. Nú rétt fyrir miðnætti eru flestar komnar í draumalandið eftir annasaman dag. Hér var margt um að vera og hófst dagurinn, eins og allir dagar, á biblíulestri þar sem við lærðum um bænina. Stelpurnar lærðu mikilvægi þess að þakka Guði fyrir allar þær gjafir sem hann veitir okkur og við ákváðum að fylla þakkarkörfu til að senda til himins. Brennókeppnin var að sjálfsögðu á sínum stað fyrir mat, en henni lýkur með foringjabrennó á morgun. Eftir mat á kváðum við að skella okkur í gönguferð niður að á, þar sem stelpurnar óðu og léku sér. Seinnipartinn fórum við svo í Ölvershringekju þar sem við bökuðum skrímslabrauð, máluðum á steina, sem við týndum í göngunni, fórum í leiki og útbjuggum brúður. Stelpurnar nutu sín vel í þessari vinnu. Kvöldinu lauk með stórskemmtilegri kvöldvöku sem Fjallaver og Hamraver sáu um. Bænakonurnar voru lengi inni á herbergjum í kvöld, enda margt að ræða síðasta kvöldið í Ölveri. Við hlökkum til morgundagsins sem verður sannkallaður veisludagur hjá okkur krílum og starfsfólki.
Við bjóðum góða nótt héðan úr Ölveri.
Petra Eiríksdóttir, forstöðukona