Það voru spenntar og flottar stelpur sem komu í Ölver í dag. Þegar þær voru búnar að koma sér fyrir í herbergjunum sínum var boðið upp á skyr og brauð sem þær svolgruðu í sig af bestu lyst. Þar sem margar af stelpunum voru að koma hingað í fyrsta sinn var mikið verið að spá og spegúlera. Hinar voru hálfgerðir heimalingar sem voru með allt á hreinu og gátu leiðbeint hinum. Eftir mat fórum við í gönguferð um svæðið og skoðuðum meðal annars Ölversfjársjóðinn og fórum í leiki. Eftir kaffi tókum við fyrstu brennókeppnina og fórum í rúsínukast í íþróttakeppninni. Fram að kvöldmat höfðu stelpurnar svo tíma til þess að eignast nýjar vinkonar, leika sér og safna minningum. Á kvöldvöku sáu stelpurnar úr Skógarveri um dagsskrána þar sem þær sýndu okkur snilldarleikrit og fóru með okkur í sulluleik.
Að kvöldvöku lokinni var haldið í ból um kl.22, hvert herbergi með sinni bænakonu og tók það þónokkurn tíma að sofna. Nokkrar voru með heimþrá en eftir heilmiklar samningaviðræður sofnuðu þær allar og bíða ævintýra morgundagsins.
Kveðja úr Ölveri
Petra Eiríksdóttir, forstöðukona