Í Vindáshlíð var allt með kyrrum kjörum snemma morguns, mánudaginn 25.júlí því stelpurnar fengu að sofa klukkustund lengur en vanalegt er, vegna geysiskemmtilegs náttfatapartýs kvöldið áður! Margar voru syfjaðar og höfðu orð á því að þær hefðu jafnvel getað hugsað sér að sofa enn lengur : )
Eftir að morgunmatur var snæddur flýttu þær sér strax á Biblíulestur, þar sem þær fræddust um að Guð væri góður hirðir sem vill vernda, leiða og hjálpa öllum.Stelpurnar stóðu sig vel í að fletta upp í Nýja testamentinu og sungu fallega „Drottinn er minn hirðir“.
Þar næst tók næsta umferð Brennókeppninnar við, en vægast sagt er komin mikil spenna fyrir úrslitaleiknum, sem fer fram á veisludegi, 26. júlí.
Í hádegismatinn var gott lasagne og salat, en eftir mat fólst útivera dagsins í svokallaðri „lækjarferð“, en þá gengu stelpurnar ásamt foringjum upp að læknum í Hlíðinni, og fengu að vaða í honum. Það vakti mikla lukku margra. Þegar til baka var komið biðu yndislegar sjónvarpskökur og bananabrauð í kaffitímanum.
Eftir kaffi var svo m.a. í boði húlla-keppni og stigahlaup. Margar stelpur skelltu sér í sturtu og fengu fínar fléttur í hárið.
Í kvöldmat var pasta með litlum pylsu-og beikonbitum ásamt salati.
Að honum loknum hófu stelpurnar að undirbúa sig fyrir „Hlíðarbíó“, en eins konar bíósalur var settur upp í kvöldvökusalnum! Stelpurnar fóru út og tíndu hver og ein eitt fallegt blóm til að afhenda í bíómiðasölu, sem foringjarnir höfðu sett upp.Einnig höfðu foringjarnir klætt sig búningum, þakið glugga bíósalarins með svörtum ruslapokum, breitt út dýnur og púða á gólfið þar sem stelpurnar sátu. Einnig fengu allar aðgöngumiða í Hlíðarbíó. Horft var á Litlu hafmeyjuna, sem flestum þótti gaman að. Boðið var upp á poppkorn og ávexti til að narta í yfir myndinni.
Eftir að ævintýrum Litlu hafmeyjunnar lauk skelltu stelpurnar sér í að hlusta á hugleiðingu frá Bryndísi foringja, þar sem hún sagði okkur söguna af Móse, og því hvernig Guð verndar okkur.
Eftir að kvöldsöngurinn hafði verið sunginn burstuðu margar stelpur tennur í læknum, og svo flýttu allar sér í náttföt og héldu í háttinn. Flestar stelpur voru fljótar að sofna, en nokkrar höfðu heimþrá, en stóðu sig samt eins og hetjur. Ró var komin um miðnættið.
Nýjar myndir eru komnar inn á heimasíðuna!

Kær Vindáshlíðarkveðja til ykkar allra,
Soffía Magnúsdóttir forstöðukona