Sólskin tók á móti okkur að morgni laugardags, þriðja dagsins okkar í 7.flokki í Vindáshlíð. Stelpurnar voru duglegar að vakna og klæða sig, og mættu sprækar í morgunmat áður en fánahylling fór fram.
Þá hófst Biblíulestur þar sem fræðst var um sköpun Guðs og það hvernig allar eru einstakar og dýrmætar í augum Guðs. Biblíufræðslunni lauk á fjörugum teiknileik sem allar tóku þátt í. Leikurinn gekk út á að setjast í hring og teikna í sameiningu furðudýr, sem minnir okkur á að Guð skapaði öll dýr sem til eru í heiminum. Gaman var að fylgjast með hlátrasköllum og gleði stelpnanna við að skoða furðudýrin í lok leiksins.
Í hádegismatinn var svo boðið upp á hakk og spaghetti. Eftir að stelpurnar höfðu borðað sig saddar var ákveðið að halda í hressilega gönguferð að fossinum Brúðarslæðu, þó vindur blési dálítið. Stelpurnar fóru vel klæddar og komu svo kátar til baka, og gæddu sér á góðum kaffiveitingum, köku með súkkulaðikremi og kryddbrauði.
Ein afmælisstúlka var í hópnum, og sungu allir starfsmenn afmælissöng Vindáshlíðar fyrir hana í kaffitímanum ásamt tilheyrandi fjöri. Fram að kvöldmat undu stelpurnar sér við ýmislegt bæði innandyra og utan. Vinabandagerð var afar vinsæl, og margar skelltu sér í aparóluna sem er í Hlíðinni eða léku sér við útileikföng.
Kvöldmaturinn var afar viðeigandi á þessum sólríka laugardegi, en svokallað „Sólskinsskyr“ var á boðstólnum, ásamt brauði. Sólskinsskyr er gult á litinn og vakti mikla lukku!
Á kvöldvöku var boðið upp á frumsamin og skemmtileg leikrit frá stelpum í Skógarhlíð, Furuhlíð og Barmahlíð. Stelpurnar tóku þar einnig vel undir ýmis lög, t.d. „Hlíðin með grænum hjöllum“ og „Rúllandi, veltandi“.
Eftir kvöldkaffi flutti Ebba foringi fallega hugleiðingu um þakklæti og bænir til Guðs. Gaman var að heyra að margar stelpur veltu bænum fyrir sér, og sögðu frá bænum sem þær hafa beðið. Stelpurnar flýttu sér svo í náttföt og að bursta tennur og enduðu þennan dag með bænakonum sínum. Á miðnætti var að mestu komin ró og kyrrð.

Við sendum góðar kveðjur úr Hlíðinni fríðu og minnum á símatíma sem er alla daga flokksins kl.11:30 og 12:00 (s.566-7044).

Soffía Magnúsdóttir
forstöðukona