Þá er veisludagurinn runninn upp, þetta er búið að vera ótrúlega skemmtileg vika og eru forréttindi að fá að vera með þessum yndislegu og skemmtilegu stelpum. Í gær var kósýdagur þar sem við skiptum stelpunum m.a upp í hópa til að undirbúa svokallaða kærleiksstund. Á stundinni sjálfri komu þær svo fram og sýndu afrakstur sinn. Í lokin var dregið um leynivini því sérstök áhersla var lögð á vináttu og mikilvægi þess að gera öðrum gott. Farið var síðan í pottinn, borðaður kvöldmatur og kvöldvakan var í boði Hlíða-og Fuglavers. Þegar stelpurnar komu niður í kvöldkaffi fengu þær heitt kakó og vöfflur í kósý kaffihúsastemmningu. Og nú er veisludagur runninn upp. Stelpurnar eru á leið í brennó þar sem þær munu keppa við foringjana. Þá verður pakkað niður, farið í pottinn og þær búa sig í sparifötin. Veislukvöldmaturinn verður síðan kl.17.30 en honum fylgir svo verðlaunaafhending og veislukvöldvaka þar sem foringjarnir munu skemmta þeim. Ég þakka innilega fyrir samveruna og vona að stúlkurnar komi glaðar og ánæðar heim. Megi Guð blessa ykkur öll.
Erla Björg Káradóttir forstöðukona