Síðasti sólarhringurinn hér í Ölveri hefur verið hreint út sagt frábær. Eftir hádegismatinn fóru stelpurnar í töluratleik og síðan var val og ákvaðu sumar stelpurnar að fara í fjallgöngu sem þær voru hæstánægðar með. Eftir kaffi var haldin hárgreiðslukeppni þar sem stelpurnar lögðu mikinn metnað í að vera frumlegar og voru greiðslurnar glæsilegar.
Í kvöldmatinn var kakósúpa og heitt brauð og borðuðu stelpurnar vel að vanda. Eftir kvöldvöku sem var í boði Skógarvers bjuggu stelpurnar sig í háttinn. Þegar nokkur ró var kominn í hús voru þær ræstar út í náttfatabrennó og stóðu þær í þeirri trú að það væri allt og sumt. Þá brá þeim heldur betur þegar gamall maður með staf mætti allt í einu inn í íþróttahús og sótti eitt herbergi í einu og leiddi inn í dularfullan ævintýraheim Mjallhvítar! Þar voru þær leiddar inn í hvert herbergið á fætur öðru og mættu speglinum, fóru inn í myrkvan skóg, hittu fyrir dvergana og vondu stjúpuna sem sagði þeim sigri hrósandi að þær væru of seinar, Mjallhvít væri dáinn. Þá fóru þær inn í matsal til að föndra blóm á kistuna hennar. Að lokum var haldið upp í sal þar sem Mjallhvít lá og syrgðum við hana saman. Þá birtust tveir mjög svo vitlausir dvergar og sögðust hafa fundið prinsinn og hann kom!, vakti prinsessuna sína og allt endaði vel meira að segja með brúðkaupi. Við fengum s.s foringja úr Vatnaskógi til að aðstoða okkur og fannst stelpunum það ekki leiðinlegt. Svo fengu allir ís og fóru þær sáttar og glaðar í rúmið. Ró var komin á um 01.00 og fengu stelpurnar þess vegna að sofa út í morgun. Þær týndust inn í morgunmat þegar þeim hentaði og nú eru þær farnar út í brennó. Í dag verður kærleiks-og vinadagur og ætlum við að sjálfsögðu að bralla margt. Fleiri fréttir af ævintýrum koma síðar…..
Erla Björg forstöðukona