Það er búið að vera mikið um að vera síðasta sólahringinn hér í Ölverinu okkar. Í gær lentu stelpurnar bókstaflega í miðju ævintýri þar sem þær hittu fyrir Rauðhettu, Garðabrúðu, andann í Alladín, Hringjarann frá Notre Dame, Öskubusku og vondu nornina með eitruð epli. Þær þurftu að leysa ýmsar þrautir til að komast á milli staða og höfðu þær mjög gaman af. Þá fór sólin loksins að skína á okkur og gott betur en það svo ákveðið var að halda niður að á þar sem stelpurnar busluðu og böðuðu sig í sólinni. Kvöldmatur var líka borðaður úti og var haldið pulsupartý niðri í laut. Eftir kvöldmat var kvöldvaka í boði Fjallavers en að kvöldkaffi loknu var blásið í lúðurinn og stelpurnar fóru út í ratleik. Kvöldið endaði svo með útileigustemmningu þar sem við grilluðum sykurpúða og sungum saman. Nú er runninn upp nýr dagur og enn bíða okkar fleiri ævintýri. Í dag er gult þema og ætlum við með því lokka sólina til okkar ;o)