Tíminn líður allt of hratt í Vindáshlíð
Stelpurnar hafa gert margt skemmtilegt í dag. Eftir hefðbundinn morgunmat, fánahyllingu og Biblíulestur var keppt í úrslitaleik í brennó. Stúlkurnar í Hamrahlíð kepptu á móti Reynihlíð og unnu leikinn og eru því brennómeistarar 6. flokks 2011.
Hringt var inn í hádegismat, stúlkurnar fengu skyr og brauð í matinn. Eftir mat var frjáls leikur þar til kl.14:00 þegar brennómeistararnir (Hamrahlíð) kepptu við forningja í brennó. Frábæru stelpurnar í Reynihlíð fengu að dæma leikinn því þær hlutu silfrið fyrr í dag.
Eftir kaffi settu stelpurnar upp vinadekur og göngugötu inni á herbergisgangi. Þar greiddu þær hvor annarri, förðuðu og fleira fyrir veislukvöldið í kvöld.
Kvöldmaturinn var einkar kósý í kvöld. Borðum var skipt eftir herbergjum, þau skreytt með kertum, dúkum og fleiru. Í boði var yndislega góðar pizzur (margarita, skinku eða pepperoní) og gos (sprite eða kók). Síðan voru úrslit kynnt og viðurkenningar gefnar fyrir hinar ýmsu keppnir sem hafa verið í gangi allan flokkinn.
Ein viðurkenning er þó aldrei veitt fyrr en á brottfarardegi og það er fyrir innanhúskeppnina. Innanhúskeppnin tekur mið af stundvísi, umgengni og hegðun allra meyja innan hvers herbergis sameiginlega. Þess vegna verður vinningsherbergið að bíða þar til rétt áður en lagt er af stað til Reykjavíkur á morgun miðvikudag, til að fá sína viðurkenningu
Eftir kvöldmatinn fengu stúlkurnar tíma til að pakka niður öllu sem þær ætluðu ekki að nota næsta sólarhringinn. Á meðan gengu foringjar frá og gerðu tilbúið fyrir FORINGJAKVÖLDVÖKU!
Kvöldvakan gekk að óskum. Margt var leikið, sungið, dansað og sprellað. Eftir kvöldvöku var hugleiðing og á henni fengu stúlkurnar íspinna að gæða sér á. Hugleiðingin sneri að því að hver og ein þeirra er sérstök og dýrmæt sköpun Guðs.
Við reyndum að fara snemma í háttinn því áætlað er að vakan 08:30 í fyrramálið (eins og alltaf á brottfarardegi) en mikil spenna lék um gangana. Sem er ekki skrítið því þetta er síðasta kvöldið í þessum frábæra flokk og stelpurnar leiðar en jafnframt spenntar að fara heim í fyrramálið. Ró var þó komin í húsið um miðnætti.
Við þökkum fyrir frábæran flokk og frábærar stelpur. Vonandi koma sem flestar þeirra aftur í hlíðina með grænu hjöllunum næsta sumar.
Guð veri með ykkur öllum.