Dagur 3. Vindáshlíð 6. flokkur
Náttfatapartýið heppnaðist með eindæmum vel í gærkvöldi. Gilsbakka-systur kíktu í heimsókn ásamt skiptinema sem átti leið hjá. Systurnar elduðu mjög athyglisverða kássu fyrir stelpurnar til að bragða á en að endingu fengu þær samt frostpinna.
Það voru því syfjaðar snótir sem lögðust á koddann í gærkvöldi hér í Hlíðinni. Í morgun fengu þær að sofa hálftíma lengur en vanalega og mættu í morgunmat kl. 10:00 í stað 09:30. Þar gátu þær valið um Cheerios, Cornflex, súrmjólk eða hafragraut. Eftir mat fóru þær upp að fána og svo rakleitt niður á Biblíulestur, þar sem þær fræddust um sköpun Guðs og hlutverk okkar innan hennar. Við búum í samfélagi við Guð en verðum að fara vel með það sem Guð hefur gefið okkur, við berum ábyrgð á umhverfi okkar og náttúru.
Eftir Biblíulestu hélt brennó-keppnin áfram, vinabönd, teikning og póstkortaskrif voru í setustofu. Í hádeginu fengu svo allir grillaða pylsur með öllu tilheyrandi og djús.
Síðan var farið í Lífsgönguna, það er leikur sem löng hefð er fyrir hér í Hlíðinni. Leiknum er ætlað að líkja eftir lífsgöngu okkar með Guði og hvernig við ættum að treysta honum til að leiða okkur áfram. Í kaffitímanum fengum við svo appelsínuköku og brauðbollur með smjöri og osti. Eftir kaffi var svo farið í brennó, hoppukastala, vinabönd hnýtt og allt hvað eina. Í kvöldmat var hakk og spaghetti einnig buðu foringjar upp á mjög listrænan dans undir laginu White flag með Dido en það vakti kátínu meðal stúlknanna.
Eftir mat var hins vegar tískusýning niðri í íþróttasal sem við köllum Vindáshlíðar next top model. Sýningin er samt ekki alveg hefðbundin vegna þess að fötin sem eru til sýningar eru búin til úr svörtum ruslapokum á um það bil klukku tíma. Einhverjir fylgihlutir eru leifðir svo sem hárteygjur, spennur og villt blóm en að öðru leiti er dressið búið til úr plastpokum og límbandi.
Eftir tískusýninguna fara stúlkurnar í kvöldkaffi þar sem þær fá ávexti og kex en þær ætla einnig að reyna að hvíla raddböndin og ná ró áður en þær setjast inn í hugleiðingu. Á hugleiðingu í kvöld verður sögð sagan af fæðingu Móse en síðan verður farið snemma í háttinn í kvöld til þess að vera úthvíldar fyrir svo kallaðan menningardag á morgun.