Já við héldum yndislegt og vel heppnað náttfatapartý í gærkvöldi fyrir stelpurnar. Nágrannakonur okkar, Gilsbakka-systur komu í heimsókn og elduðu „ljúffengan“ pottrétt með drekaskít, mold, eggjaskurn og fleiru „bragðgóðu“. Til allrar lukku átti Tóbías, danskur skiptinemi leið hjá en hann var fyrir einskæra tilviljun með fullt af frostpinnum í bakpoka sínum sem hann gaf stúlkunum í staðin fyrir kássuna sem systurnar útbjuggu. Einnig var dansað uppi á borðum við tónlist Justin Beber, Jedward tvíburanna úr eurovision og fleiri lög.
Skógarhlíð vann brennó-keppnina og keppti við foringja eftir hádegi í dag þriðjudag, Hamrahlíð varð í örðu sæti og fékk því að dæma foringjaleikinn. Að foringjaleiknum loknum spiluðu Hamrahlíð og foringjar saman á móti öllum hinum stelpunum (nema Skógarhlíðar því þær dæmdu leikinn). Allt gekk þetta vel fyrir sig og dvalarstúlkur og foringjar skemmtu sér mjög vel.
Eftir leik var kominn kaffitími og stúlkurnar fengu muffins og súkkulaðiköku með bláu og bleiku kremi til að gæða sér á.
Enn er óljóst hvaða herbergi vinnur innanhús keppnina sem meðal annars dæmir stundvísi, hegðun í matartímum, tiltekt og umgengni við herbergi og hvernig gengur að koma ró á í húsinu fyrir nóttina. En það kemur í ljós í fyrramálið, á sjálfum brottfarardeginum hvaða herbergi stóð sig best í því.
Veislukvöldið í kvöld heppnaðist fullkomlega. Eftir „Vefa mjúka“ var haldið inn í setustofu þar sem myndir voru teknar af hverju herbergi fyrir sig með sinni bænakonu. Stúlkurnar voru í sínum fínni fötum og margar búnar að greiða á sér hárið fyrir kvöldi. Sumar fengu meira að segja viðurkenningu fyrir fumlegustu, virðulegustu, flottustu hárgreiðsluna og fleira. Við fengum pizzur og Vindáshlíðar-djús með.
Vegna þess hve fáar stúlkur eru í flokknum var ákveðið að halda foringja-kvöldvökuna í setustofunni eins og tíðkaðist hér áður fyrr. Þá komu aðrir nágrannar í heimsókn, Sandfellsbræður og fluttu þeir stúlkunum helstu fréttir vikunnar. Einnig voru nokkur leikrit, söngvar og dansar sem foringar sýndu við mikinn fögnuð stúlknanna.
Vikan hefur liðið ofsalega fljótt og blendnar tilfinningar brutust um í stúlkunum í dag. Margar hlakkaði til að fara heim en vildu samt eigilega vera áfram í Hlíðinni. Þær eru þakklátar fyrir að kynnast nýjum vinkonum og að hafa fengið að kynnast Hlíðinni og starfsfólki hennar. Við eru einnig ofsalega ánægð með þennan flokk og innan hans leynast eflaust foringjar framtíðarinnar.
Við leggjum af stað í fyrramálið (miðvikudag 13. júlí) frá Vindáshlíð klukkan um það bil 11:00 og áætlaður komutími á Holtaveginn er um klukkan 12:00. Ég, Nanna Björk forstöðukona mun bíða með stúlkunum á Holtavegi uns sú síðasta verður sótt.
Við þökkum fyrir samveruna með þessum frábæru stelpum og vonandi heimsækja sem flesta þeirra Hlíðina aftur seinna.