19 krakkar lögðu af stað í Kaldársel í morgun í ágætu veðri. Skýjað en hlýtt var þegar krakkarni brunuðu af stað á vit ævintýranna. Dagurinn í dag var tekinn með trompi og öllu var flaggað. Krakkarnir hafa flestir komið hingað áður og vita vel hvað skal gjöra í Kaldárseli. Í ljósi þess að engin á er í Kaldárseli höfum við lagt það í vana okkar að þræða út langa garðslöngu og hafa hana í árfarveginum. Þar gefst gott tækifæri til að drullumalla og gera ýmsan usla. Inni í íþróttasal hefur skotbolti verið vinsæll ásamt því að vinabönd eru framleidd hér á færibandi. Um miðjan dag rukum við upp á Helgafell, fjall sem er rúmlega 300 metra yfir sjávarmáli og fóru allir upp á topp! Mismikið var kvartað en allir komu þreyttir en sælir til baka eftir göngu í frábæru veðri.
Seinni part dags var svo farið í dýraratleik þar sem hópnum var skipt í lið og var búið að fela 50 miða um allt hús. Saman unnu þau sig svo upp í töluna 50 með því að leysa mismunandi þrautir og kasta tening á milli. Eina þrautin sem var vonlaust að leysa í þetta skiptið var að fá forstöðumann flokksins til að segja: „Áfram Man. Utd.“ Enda ógjörningur fyrir gallharðan Liverpool-mann að segja slíkan óhróð.
Þegar leiknum var lokið tóku nokkrir krakkar sig saman og æfðu leikrit fyrir kvöldvökuna sem haldin var með pompi og prakt í kvöld. Þar var sungið, hlegið og haft gaman. Þegar kvöldvakan var búin var farið niður og fengið sér kvöldhressingu. Eftir hana var slegið í náttfatapartý þar sem krakkarnir lögðust á dýnur inni í sal og horfðu á bíómynd.
Þreyttir en sælir fóru allir að sofa rúmlega tólf og sofnuðu allir strax og lagst var á koddann. Sælir og ánægðir krakkar hér í Kaldárseli sofnaðir og við foringjar ætlum einnig að fara og safna kröftum fyrir morgundaginn sem verður ekki síðri en dagurinn í dag.
Myndir koma á morgun en þess má geta að vegna tölvuvandræða komust myndir úr 5. flokki ekki inn fyrren nú áðan. Þær má finna á myndasíðunni.
Kveðja úr Kaldárseli
Arnór Heiðarsson, forstöðumaður.