Veðurblíðan hefur leikið við okkur í Ölveri þessa vikuna og var þessi dagur engin undantekning. Eftir hádegi fórum við í stutta gönguferð og leituðum uppi hinn eina sanna Ölversfjársjóð en hann er á leyndum stað nálægt sumarbúðunum. Í fjársjóðnum var alls konar dót sem stelpur fyrri flokka hafa sett í hann. Reglan er sú að það má bæta í hann en ekki má taka úr honum. Eftir fjársjóðsleitina lá leiðin aftur upp í Ölver þar sem stelpurnar fylgdust spenntar með úrslitaleik brennó. Á morgun mun vinningsliðið spila við starfsfólkið. Að leik loknum var boðið upp á þrjár mismunandi útistöðvar; fótbolta, skotbolta og vinabandagerð. Vinsælasta stöðin reyndist vera vinabandagerðin. Stelpurnar sátu lengi við í veðurblíðunni og föndruðu mörg vinabönd bæði á sig og aðra.
Eftir kaffi birtust geimverur í salnum sem skildu eftir bréf og flúðu svo á brott. Í bréfinu stóð að tveimur foringjum hefði verið rænt og kom það í hlut stúlknanna að finna geimverurnar og fá upplýsingar útúr þeim hvar foringjana væri að finna. Eftir mikla leit og hlaup fundu stelpurnar sem gista í Hlíðarveri foringjana bundna í rjóðri skammt frá skálanum. Að sögn foringjanna voru stúlkurnar hjálplegar við að styðja við þær og leiða áfram eftir prísundina.
Í kvöld var hefðbundin og hress kvöldvaka. Þegar henni lauk voru stelpurnar sendar niður í náttföt og fengu svo að koma aftur upp í sal því þar hófst kósýkvöld. Þar fengu þær að horfa á stelpumynd ásamt því að fá „gourme“ pinnamat sem innihélt osta, skinku og vínber.

Kveðja
Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona