Enn einn yndislegur og sólríkur dagur í Hlíðinni. Byrjuðum daginn á cheerios og kornflexi með súrmjólk eða mjólk. Stúlkurnar skelltu sér svo í peysur og fór upp að fána. Í bænalestri eftir fánahyllingu ræddum við um sköpun Guðs og þakkir okkar til hans, fyrir það sem hann hefur gefið okkur. Síðan tóku brennóleikir við í íþróttahúsinu og sturtuferðir dvalarstúlkna.
Í hádegismat var pylsupartý og djús. Ráðgert er að ganga upp með læknum í útiveru í dag og mæta svo í kaffitíma og fá norska teköku með súkkulaðikremi ásamt einhverju öðru góðgæti. Íþróttakeppni dagsins verður hið sígilda Hlíðarhlaup en þá hlaupa stúlkurnar frá skála niður að hliði, á sem skemmstum tíma.
Í kvöldmat verður fiskréttur með grænmeti, kartöflum og hrísgrjónum. Kvöldvaka verður að hluta inni en seinni hluti hennar verður í leik úti á túni ef stúlkurnar vilja það. Eftir kvöldvöku er kvöldkaffi og svo hefðbundin hugleiðing í lok dags.