Í gær blasti við sólríkur dagur og lögðum við því land undir fót eftir hádegi. Förinni var heitið niður að á sem liggur í gili stutt frá Ölveri. Þar fengu stelpurnar að vaða, busla og leika sér í ánni. Eftir góða stund í sólinni var komið að kaffitíma við árbakkann en hann innihélt gómsætt bakkelsi og djús. Vatnið í djúsinn var fengið úr ánni sem gerði hann klárlega betri. Þess má einnig geta að starfsmenn Ölvers voru duglegir að hvetja stelpurnar til að bera á sig sólarvörn og spasla á þær sem vantaði.
Eftir kaffitímann héldum við aftur upp í Ölver og tók þá við íþróttakeppni og frjáls tími. Landsvæðið í Ölveri er nokkuð stórt og geta allar stelpurnar fundið sér eitthvað til gera úti hvort sem það eru stultur, stangartennis, boltaleikir, aparólan, liggja í risa hengirúmi eða feluleikir í rjóðrinu.
Í gærkvöld var kvöldvaka að hætti Ölvers og voru það stúlkurnar sem gista í Hamraveri sem sáu um atriðin. Við lok kvöldvöku tilkynnti undirrituð að kornflexið væri „horfið“ og vildi vita hvort að þær könnuðust við þetta stóra sakamál. Það væri nú ómögulegt að hafa morgunmat án kornflex. Einhver kannaðist við að hafa séð kornflexslóð og voru stelpurnar sendar út til að elta slóðina og finna kornflexið. Stelpurnar eltu slóðina upp og kom í ljós að við enda slóðarinnar sátu tveir undarlegir karakterar og hámuðu í sig kornflexið. Eftir að kornflexið var endurheimt komu stelpurnar aftur upp í hús og rann þá upp fyrir þeim að nú væri hafið náttfatapartý með öllu tilheyrandi, dansi og atriðum. Það voru þreyttar og ánægðar stúlkur sem lögðust á koddann í kvöld.
Það má með sanni segja að hér una stúlkurnar sér vel og eru vel útiteknar eftir útiveru gærdagsins.

Sólveig Reynisdóttir, forstöðukona