Næsta laugardag, þann 9. júlí halda fjórar konur frá KFUM og KFUK á Íslandi, þær Hildur Björg Gunnarsdóttir, Hildur Þóra Hallbjörnsdóttir, Gyða Karlsdóttir og Kristín Sverrisdóttir, á Heimsþing KFUK sem haldið verður í Zürich í Sviss. Þingið stendur frá 10. til 16. júlí, en yfirskrift þess er „Women Creating a Safe World“. Aðalumfjöllunarefni þingsins eru öryggi, réttindi og valfrelsi kvenna á ýmsum sviðum.
Konurnar fjórar, fulltrúar KFUM og KFUK á Íslandi, munu taka virkan þátt í þinginu og halda erindi sem snýr að því að kynna Verndum þau – námskeiðin sem hafa verið haldin af KFUM og KFUK í samstarfi við BÍS og UMFÍ (Æskulýðsvettvangurinn).
Heimsþing KFUK hafa verið haldin á fjögurra ári fresti allt frá árinu 1898. Frá 1999 hafa verið haldin þing samhliða Heimsþingunum, svokölluð „International Women‘s Summits„, þar sem haldnir eru ýmsir fyrirlestrar sem varða konur og stúlkur í heiminum, kjör þeirra og réttindi.
Í ár mun Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands og baráttukona á sviði kvenréttinda og mannréttinda, flytja erindi á þinginu. Robinson var fyrsti kvenforseti Írlands, og hefur m.a. starfað sem mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
Þess má geta að auk Robinson verða tveir fyrrum forsetar þjóðlanda, Síle og Sviss, viðstaddar þingið.
Mary Robinson hafði frumkvæði að stofnun sjóðs, sem hefur þann tilgang að styðja við og styrkja konur sem skara fram úr í mannréttindamálum. Á Heimsþinginu í ár verður í fyrsta sinn styrk úthlutað úr þessum sjóð, „The Mary Robinson Award“.