Þriðjudagurinn 5. júlí

Jæja, veisludagur rann upp í öllu sínu veldi og sólin lét sig ekki vanta í gamanið og hvað þá síður kindurnar sem komu forstöðukonunni á óvart fyrir allar aldir er þær stóðu og jöpluðu á birkitrjám á meðan stúlkurnar sváfu. Eftir morgunmat og fánahyllingu var biblíulestur þar sem stelpurnar lærðu um bænina og fengu að sjá Justin Bieber myndband í tengslum við það. Mikill spenningur var fyrir úrslitakeppnina í brennó sem haldin var eftir biblíulesturinn og svo nýttu stelpurnar daginn í að hnýta vinabönd, keppast um að sippa sem oftast, leika sér í náttúrunni hér í kring og þá sér í lagi í apabrúnni, aparólunni og læknum. Dagurinn var ákaflega fagur og stelpurnar virtust svo sannarlega kunna að meta það að fá að vera í þessari náttúruparadís á svona sólskinsdegi.

Í hádegismat fengu þær pylsupasta og fögnuðu því og tóku vel til matar síns. Eftir hádegi nutu stelpurnar sólskinsins þar til brennókeppni á milli foringja og brennómeistaranna hófst og að henni lokinni kepptu allar stelpurnar á móti foringjum og því herbergi sem hafnaði í öðru sæti brennókeppninnar. Eftir það var frjáls tími fram að kaffi sem flestar stelpurnar nýttu til að hoppa í tveimur uppblásnum hoppuköstulum sem stóðu úti á fótboltavelli.

Kaffitíminn var undir berum himni og boðið var upp á kryddbrauð með smjöri og súkkulaðiköku og mjólk. Eftir kaffitímann hófst göngugata og vinadekur og stelpurnar gerðu sig klárar fyrir kvöldið.

Þegar bjallan hringdi söfnuðust stelpurnar saman úti á hlaði fyrir hópmyndatöku og svo var haldið upp að fána þar sem við sungum þjóðsönginn meðan fáninn var dreginn niður. Svo ófum við mjúka dýra dúka alla leið niður að skála og þar tóku herbergismyndatökur við áður en stelpurnar komu sér fyrir inni í hátíðlega skreyttum matsalnum. Í kvöldmatinn var Vindáshlíðarpitsa og Vindáshlíðargosdrykkur og borðuðu stelpurnar nægju sína og sumar rúmlega það.

Kvöldvakan var í umsjá foringja og var mikið sungið og hlegið. Atriðin voru hverju öðru fyndnara og mátti heyra þvílíkar hláturrokur yfir Hlíðarsjónvarpinu þar sem grínast var með ýmislegt sem gerst hefur í flokknum. Eftir kvöldvökuna fengu stelpurnar íspinna og fóru svo inn í setustofu þar sem þær hlustuðu á hugleiðingu. Því næst var síðasta bænó þessa ævintýraflokks og margar vildu koma bænakonum sínum á óvart með ýmsum hætti. Stelpurnar sofnuðu sælar eftir þennan stórskemmtilega dag og er undarlegt til þess að hugsa að vikan hafi verið svona fljót að líða.

Eins og fyrr segir hefur þetta verið frábær ævintýraflokkur og ekki var verra að fá að enda vikuna í glaðasólskini. Við starfsfólkið erum ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum skemmtilegu stelpum og fá að vera með þeim hér þessa vikuna.

Bestu kveðjur úr Hlíðinni og sjáumst fljótt!