Mánudaginn 4. júlí var menningardagur í Vindáshlíð. Dagurinn hófst á morgunverði og eftir hann fóru allar mettar og hressar á biblíulestur þar sem þær lærðu um kærleika Guðs og að Jesús hafi dáið svo við mættum eiga eilíft líf. Eftir biblíulestur var sippukeppni, vinabandagerð og fleira var bardúsað.

Í hádegismatinn var ákaflega góð ávaxtasúrmjólk og þegar bjöllunni var hringt klukkan tvö var stúlkunum skipt í hópa sem flökkuðu á milli stöðva og kynntust ólíkum löndum og ýmsu varðandi menningu þeirra. Þær lærðu meðal annars ný-sjálenskan dans, rússneskt stafróf, nokkur orð á swahili sem talað er í Kenýa og ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt um Frakkland og Færeyjar.

Í kaffitímanum voru heilsubitakökur og jólakaka á boðstólum sem runnu ljúflega niður með ískaldri mjólk. Eftir kaffi voru brennókeppnir, sippkeppnin hélt áfram og einnig undirbjó hópur stúlkna menningardans fyrir kvöldvökuna.

Áður en kvöldmatur hófst drógu stelpurnar miða sem á stóð ákveðið land. Þær áttu svo að finna sér sæti í matsalnum ,,í því landi“. Þegar maturinn var framreiddur upplifðu þær mikið óréttlæti því talsverður munur var á því hvað hverju landi var boðið að borða. Tvær stúlkur sátu til dæmis við kertaljós á bandarísku matarborði og fengu nokkurs konar hamborgara (sloppy joe) og gos á meðan boðið var uppá eggjaköku í Rúmeníu og popp og kaffi í Eþíópíu. Í lok matartímans létu sumar, sem blöskraði verulega þetta óréttlæti, í sér heyra en öllum létti þó þegar þakka átti fyrir matinn því þá var þeim tilkynnt að engin ætti að fara svöng út úr matsalnum og þær myndu allar fá mat á bandaríska vísu. Stúlkurnar borðuðu nægju sína og urðu allar sáttar og saddar. Matartíminn var að sjálfsögðu liður í þema dagsins og ætlaður til að vekja stúlkurnar til umhugsunar um það hvernig aðrir í heiminum hafa það.
Á kvöldvöku sýndu stelpurnar menningartengdan dans og svo var haldið í íþróttahúsið þar sem farið var í ýmsa skemmtilega leiki. Einnig sýndu foringjarnir stórskemmtilegan leikþátt og að lokum horfðu stelpurnar á stutt myndband tengt þema dagsins.

Í kvöldkaffi voru appelsínur og matarkex og svo var héldu stelpurnar inn í setustofu þar sem þær sungu og hlustuðu á hugleiðingu um Lasarus. Því næst gerðu þær sig klárar í háttinn og áttu notalega stund inni á herbergi með bænakonunum sínum þar sem þær röbbuðu um daginn og báðu saman fyrir svefninn.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt þegar maður skemmtir sér vel og margar voru undrandi yfir því í dag að veisludagur yrði strax á morgunn. Flokkurinn hefur gengið mjög vel enda frábærar og skemmtilegar stelpur í þessum ævintýraflokk og starfsfólkið virkilega yndislegt.

Kærar kveðjur úr Vindáshlíð!

Við komum á Holtaveginn klukkan 12 á hádegi miðvikudags.