Veisludagur 5. flokks í Vatnaskógi er runninn upp. Strákarnir fengu að sofa hálftíma lengur en vant er og voru því vaktir klukkan 9.00 í stað 8.30. Morgunverðurinn var því færður til 9.30 af þeim sökum. Eftir morgunmat verður svo morgunstund og Biblíulestur, sem endar á forkeppni Biblíuspurningakeppninnar, en tvö efstu borðin í undankeppninni keppa til úrslita á veislu-kvöldvökunni í kvöld.
Eftir morgunmat verður brekkuhlaup eins og hefð er fyrir að hafa á dagskrá fyrir hádegi á veisludegi. Þá verður smíðastofan og íþróttahúsið opið, auk þess sem vítakeppni í knattspyrnu verður á boðstólum.
Hádegismaturinn verður á sínum stað klukkan 12.00 og verður nautahakk í hamborgarabrauðum í matinn. Eftir hádegismatinn er svo stefnt að því að hafa hinn vinsæla hermannaleik, þar sem skipt er í tvö lið þar sem allir fá þvottaklemmu sem er klemmd á hver og einn. Leikurinn gengur svo út á það að safna sem flestum þvottaklemmum í fötu og það lið sem safnar fleiri klemmum í sína fötu sigrar. Hermannaleikurinn mun standa yfir nánast fram að kaffi sem verður klukkan 15.00.
Eftir kaffi verða heitu pottarnir svo opnir og íþróttahúsið og smíðastofan að sjálfsögðu, auk þess boðið verður upp á fleira fjölbreytt. Kvöldmaturinn verður svo klukkan 18.30 þar sem boðið verður upp á úrvals svínakjöt ásamt alls kyns meðlæti og sósu, auk þess sem drengirnir fá gos í fyrsta og eina sinn þessa vikuna með matnum. Sannkölluð veislumáltíð.
Eftir veislumatinn halda strákarnir svo út í Gamla skála á kvöldvöku. Þar verður mikið sungið, Sjónvarp Lindarrjóður sýnt (valdar klippur úr flokknum), úrslit Biblíuspurningakeppninnar, verðlaunaafhending og margt fleira. Kvöldvakan sem verður í lengra lagi í kvöld endar svo á hugleiðingu og á því að allir fá íspinna í kvöldhressingu í tilefni veisludagsins.
Á morgun er svo síðasti dagurinn. Þá verður vakið klukkan 9.00, morgunmatur hálftíma síðan og þar sem verður sunnudagur verður að sjálfsögðu guðsþjónusta, en þó með hætti Skógarmanna. Eftir hádegismat verður síðasta frjálsa dagskráin og þá klára strákarnir líka að pakka niður. Kaffi verður klukkan 15.00 og brottför til Reykjavíkur klukkan 16.00.
Áætlað er að rúturnar komi til Reykjavíkur klukkan 17.00.