Frá Þorkeli Gunnari Sigurbjörnssyni, forstöðumanni í 5.flokki Vatnaskógar:
Fimmti dvalarflokkur sumarsins í Vatnaskógi hófst í gær. Sumarbúðirnar geta mest haft 95 drengi í hverjum flokki, en þessa vikuna eru 86 drengir. Það fór allt vel af stað og eftir að piltarnir höfðu komið sér fyrir í herbergjum tóku þeir hraustlega til matar síns, en boðið var upp á kjúklingaleggi ásamt meðlæti í hádegismat í gær.
Eftir hádegismat gátu drengirnir valið um að fara í gönguferð um staðinn, heimsækja smíðaverkstæðið, íþróttahúsið eða fara í fótbolta. Nokkuð vindasamt hefur verið frá því flokkurinn hófst, og því hefur reynst erfitt fyrir svo unga stráka að leika knattspyrnu utandyra, en það var þó bætt úr því í dag með innanhúsfótboltamóti fyrir þá sem höfðu áhuga á því.
Kaffitímar eru klukkan 15.00 og í kaffinu í gær fengu drengirnir skúffuköku, hafrasmáköku, brauð og ávexti. Eftir kaffi og fram að kvöldverði tók við frjáls tími; hoppukastalar í íþróttasal, borðtennismót, smíðaverkstæði langstökk án atrennu.
Í kvöldmatinn, sem var klukkan 18.00 var pasta og hvítlauksbrauð, og borðuðu strákarnir almennt vel af matnum og hafa gert þennan fyrsta sólarhring. Eftir kvöldmat var keppni í kúluvarpi, heitir pottar opnar, smíðaverkstæði og fótboltaspilsmót. Það er alltaf nóg um að vera í Vatnaskógi og séð til þess að allir hafi nóg fyrir stafni, jafnvel þó bátarnir hafi enn ekki verið opnir, vegna vindsins.
Kvöldhressing var klukkan 20.30 og þar fengu piltarnir ávexti og héldu svo á kvöldvöku þar sem var sungið mikið, sýnt leikrit, stuttmynd sem gerist í Vatnaskógi og hugleiðing út frá kristnum gildum. Eftir kvöldvöku voru flestir orðnir dauðþreyttir.
Ró var komin á staðinn klukkan 23.00.
Í morgun var vakið klukkan 8.30 og morgunverður klukkan 9.00. Í morgunmat var morgunkorn og hafragrautur. Eftir morgunmat var svo morgunstund og biblíulestur og í kjölfarið frjáls tími fram að hádegismat sem hefst núna klukkan 12.00.
Allt hefur gengið vel og hafa drengirnir nóg fyrir stafni. Fyrir suma virðist frekar vera erfitt að velja á milli hvað eigi að gera milli matartíma frekar en að einhverjir sitji iðjulausir.
Myndir úr flokknum má sjá HÉR.
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
forstöðumaður