Í dag náði ruglið hámarki í Ölveri enda var þar rugldagur. „Strákarnir“ J voru vaktir í miðdegiskaffi kl. 9:30 og eftir það var svo leikskólastund í biblíufræðslunni. Þar sungum við m.a. Í leikskóla er gaman og fleiri góð leikskólalög. Eftir það voru „strákarnir“ leiddir af kind og belju út í íþróttahús þar sem enn ein brennókeppnin fór fram.
Þá var komin tími til að bjóða öllum „strákunum“ út að borða J þ.e. kvöldverður var framreiddur kl. 12:00 úti á stétt þar sem allir gátu borðað pylsur með öllu að vild og grillað sér svo sykurpúða að því loknu.
Eftir hádegið var komið að kvöldvökunni og á henni bar hæfileikakeppnin hæst. Og þvílíkir hæfileikar sem flæddu um húsið! Söngur, dans, gítar- og píanóleikur ásamt fimleika- og myndlistarsýningu. Dómararnir sem ráðnir voru til dómararstarfa í þessari keppni komu að þessu sinni frá Eþíópíu og tjáðu sig mest á swahili með sterkum portúgölskum hreim. Þeir sitja nú sveittir við að finna út úr því hverjum ber sigurinn og þeir eru svo sannarlega ekki öfundsverðir. Um leið og kvöldvökunni lauk fóru „stákarnir“ beint í rúmið. Ekki fengu þeir að hvílast þar lengi því jólin voru á næsta leyti og jólalögin tóku að hljóma um húsið. Þá var lítið annað að gera en að skella sér í jólabaðið og sparifötin. Í dag er 24. Júní og því er náttúrulega aðfangadagskvöld og þá er borðaður hátíðarmatur. Borinn var á borð dýrindis jólamatur frá Spáni, þ.e. fiskur. Eftir matinn var svo slegið upp jólaballi og dansað í kringum jólatréð. Jólasveinninn lét sig að sjálfsögðu ekki vanta og kom eins og hans er von og vísa hlaðinn góðgæti handa ljúfum jólabörnum.
Eftir jólaballið birtust svo hér á svæðinu mjög dularfullar ævintýraverur, það voru m.a. Hrói höttur, Gandálfur, Svarti riddarinn o.fl. Stúlkurnar þustu út til að leita að þeim. Þegar öllum hindrunum hafði verið rutt úr vegi og stúlkurnar sigrað svarta Riddarann, biðu þeirra rjúkandi heitar lummur og djús í matsalnum. Já, þær voru þreyttar og sælar stúlkurnar sem lögðust á koddann í kvöld eftir ævintýralegan dag í Ölver.
Ps. Í dag hét allt starfsfólkið Þórey !!
Kær kveðja til ykkar allra frá okkur Þóreyjunum J