Síðasti sólarhringur í Vatnaskógi hefur verið í fjörugra lagi. Eftir hádegisverð í gær ákváðu starfsmenn að grípa tækifærið, enda veður stillt og glampandi sól, og fara með allan hópinn í gönguferð upp í gil eitt hér hinum megin við Eyrarvatn. Þar rennur fjallalækur í gegn og bíður upp á ómótstæðilegar aðstæður til að stökkva ofan í ískalda hyli. Að ferð lokinni tók síðan við hefðbundinn dagskrá, kvöldmatur og síðar kvöldvaka. Nokkrir drengir ákváðu að nýta eina klukkustund í að þökuleggja nýja flöt sem má nýta til leikja og aðstoðuðu þar stjórnarfólk úr stjórn Vatnaskógar sem var í heimsókn. Voru stjórnarmenn sérlega þakklátir fyrir aðstoðina sem var langt í frá sjálfsögð.
Eftir kvöldvöku og kvöldkaffi settum við á svið dagskrá sem miðaði að því að kynna drengjum aðstæður þeirra sem búa við óöryggi og ótta vegna átaka og hamfara. Drengirnir tóku virkan þátt og spurðu margir hvort við gætum haldið verkefninu áfram daginn eftir (þ.e. í dag). Við þökkum systursumarbúðunum í Vindáshlíð fyrir að hafa þróað verkefnið.
Núna í morgun ræddum við síðan um sköpun Guðs og mikilvægi þess að greina á milli orðanna "hver" og "hvernig" og komum stuttlega inn á hvernig mismunandi bókmenntahefðir miðla upplýsingum á mismunandi vegu.
Myndirnar eru hér: http://www.flickr.com/photos/vatnaskogur/sets/72157626896025405/ Hægt er að ná sambandi við forstöðumann á netfanginu: elli@vatnaskogur.net.