Fyrsti dagurinn okkar hér í Kaldárseli var ljúfur og skemmtilegur.
Við byrjuðum daginn á því að skoða svæðið og fara yfir það sem væri hér í boði. Eftir hádegi var farið í göngu í Kúadal þar sem náðist bæði að slaka á og fara í leiki. Duglegur og kraftmikill hópur hér á ferð! Eftir göngu var ýmislegt í boði. Stelpurnar lögðu grunninn að hinu myndarlegasta kofaþorpi, í listasmiðju máluðu þær á striga og krukkur, bjuggu til perlulistaverk og hver teikningin á fætur annarri er hengd upp á veggi. Íþróttasalurinn er vel nýttur sem og hið sívinsæla fótboltaspil. Við enduðum svo daginn á kvöldvöku þar sem stelpurnar sungu, horfðu á leikrit og hlustuðu á hugvekjur. Margar voru lengi að sofna á nýjum stað en öllum virtist líða vel.
Stelpurnar eru algjörir snillingar og hver annarri skemmtilegri þannig að við sjáum fram á afar skemmtilega vikudvöl hér í Kaldárseli!