KFUM og KFUK á Íslandi hefur nú gengið frá ráðningu tveggja nýrra æskulýðsfulltrúa sem verða hluti af starfsmannateymi félagsins í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Holtavegi. Þetta eru þau Hjördís Rós Jónsdóttir félagsráðgjafi og Halldór Elías Guðmundsson sérfræðingur á sviði kristilegs starfs.
Hjördís Rós tók til starfa 1. júní síðastliðinn. Hún hefur mikla reynslu af starfi KFUM og KFUK, meðal annars sem leiðtogi í æskulýðsstarfi félagsins, starfsmaður í sumarbúðum og leikjanámskeiðum, verkefnisstjóri fyrir Evrópumót KFUM í Prag 2008 og nú síðast verkefnistjóri vegna Verndum þau námskeiðanna og Kompás-námskeiðanna sem Æskulýðsvettvangurinn hefur staðið fyrir í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Halldór Elías Guðmundsson kemur til starfa í september. Hann hefur lokið meistaragráðum, annars vegar í leikmannafræðum og hins vegar á sviði leiðtogakenninga og safnaðaruppbyggingar frá Trinity Lutheran Seminary. Halldór hefur eins og Hjördís reynslu af starfi KFUM og KFUK. Hann var starfsmaður í sumarbúðum félagsins í Vatnaskógi bæði sem sumarstarfsmaður en einnig á fermingarnámskeiðum. Auk þess sinnti hann um skeið æskulýðsstarfi og leiðtogaþjálfun fyrir félagið.
Við fögnum nýju starfsfólki og bjóðum þau Hjördísi Rós og Halldór Elías hjartanlega velkomin til starfa fyrir KFUM og KFUK á Íslandi. Um leið þökkum við þeim Kristnýju Rós Gústafsdóttur og Þór Bínó Friðrikssyni innilega fyrir vel unnin störf í vetur, en Kristný lét af störfum í vor og Þór Bínó fer til annarra starfa síðar í sumar.