Á hvítasunnumorgni var hér blíðskapaveður, stelpurnar fengu aðeins öðruvísi morgunverð til að halda upp á það að þær væru allar orðnar Hlíðarmeyjar.
Dagskrá dagsins var örlítið öðruvísi en venjulega vegna Hvítasunnunnar og því eftir morgunmat var frjáls tími, brennó og íþróttir. Eftir hádegi þar sem þær snæddu á grjónagraut var farið í fallega gönguferð að Pokafoss og Brúðarslæðu, þar fengu þær að stinga fótunum í vatnið en enn var of kalt til að fara undir fossinn.
Kvöldvakan var að sjálfsögðu á sínum stað en eftir hana var upp í kirkju og haldin guðsþjónusta. Allar stelpurnar lögðu hönd á þjónustuna með leikhóp, sönghóp, skreytingarhóp og bæna-og undirbúningshóp. Þær stóðu sig allar alveg einstaklega vel. Í guðsþjónustunni fengu þær að heyra sögu Hallgrímskirkju og hvernig við í Vindáshlíð vorum svo heppin að eignast hana og hversu vel gekk að fá hana hingað.
Eftir guðsþjónustuna var kvöldkaffi þar sem þær fengu kærleikskúlur sem undirbúningshópurinn hafði búið til fyrr um daginn. Allar fengu þær bænakonuna inn til sín og nutu vel þann tíma sem þær fengu saman.
Allar sáttar og sælar og mjög þreyttar eftir sólríkan dag í hinni fögru Vindáshlíð.