Frá Salvari Geir Guðgeirssyni, forstöðumanni 4. flokks á Hólavatni:
Fyrsti drengjaflokkur sumarsins á Hólavatni, 4. flokkur, hefur gengið vel. Drengirnir komu með rútu á mánudagsmorgni og Hólavatn tók á móti þeim með allri sinni dýrð! Heiðskír himinn, hægur vindur og ágætlega hlýtt. Þannig hefur veðrið verið fyrstu tvo dagana í flokknum. Mánudagurinn fór að mestu í frjálsan tíma og voru bátarnir mjög vinsælir. Einnig eru margir í fjörunni að leika sér, með því að grafa skurði í lítilli vík, drullumalla og dæla vatni með lítilli handknúinni vatnsdælu sem við erum með. Eftir kaffi á mánudeginum var svo í boði að vaða og synda í vatninu næst bryggjunni undir strangi gæslu og leiðsögn foringjanna. Drengirnir una sér vel í og við vatnið. Á mánudeginum var Hólavatnsskyr í hádegismat og í kvöldmat var steiktur fiskur. Strákarnir eru mjög duglegir að borða og til að mynda borðuðu þeir allan fiskinn sem var í boði í kvöldmatnum. Klukkan 20 á kvöldin eru kvöldvökur og þá er mikið sungið, leikþættir fluttir og einhver foringjanna flytur hugleiðingu út frá Guðs orði. Drengirnir fara í háttinn um kl. 22 og þeir eru vaktir kl. 8:30. Morgunmatur er klukkan 9 en áður en hann hefst hyllum við íslenska fánann með fánasöng en það er gömul hefð í sumarbúðastarfi KFUM og KFUK á Íslandi sem hefur verið viðhöfð frá árinu 1923. Eftir morgunverð er svo morgunstund þar sem er mikið sungið og biblíufræðsla.
Þriðjudagurinn var jafn sólríkur og mánudagurinn en vindur var örlítið meiri. Gæfa Hólavatns er sú að allmikil hæð er fyrir norðan búðirnar sem skýlir þeim við norðanáttinni og því er lygnara á vatninu en ella. Fyrir hádegi var íþróttakeppni og bátar. Eftir hádegi fórum við með alla á íþróttavöllinn þar sem knattspyrna var iðkuð. Svo fórum við í gamlar réttir hinum megin við þjóðveginn og fórum í ýmsa leiki, þ.á.m. í hefðbundinn réttarleik. Eftir kaffi var góða veðrið nýtt til hins ýtrasta. Við gengum með alla drengina upp eftir hólunum okkar og niður í fallega vík við suðvestanvert vatnið. Þar er skjólsælt, mjög aðgrunnt, og leir í botni vatnsins, sem sagt; kjöraðstæður fyrir strákana til að vaða, leika sér í vatninu og drullumalla. Er við komum tilbaka úr svokallaðri Drulluvík fóru nánast allir strákarnir út á báta. Í hádegismat á mánudeginum var hakk og spagettí en í kvöldmat var stafasúpa og heitt brauð með osti.
Báða dagana hefur verið heiðskírt eða léttskýjað, hæg norðanátt og alveg þurrt. Þó kalt loft sé yfir landinu þá hefur sólin náð að hita upp loftið hér inni í Eyjafirðinum hjá okkur og því hefur hitinn á daginn verið frá 12 til 15°C. Á kvöldin kólnar fljótt og hitinn á nóttunni hefur verið frá -1 til 4°C.
Kær kveðja frá forstöðumanni, ráðskonu og fimm foringjum.
Salvar Geir Guðgeirsson, forstöðumaður.
Myndir frá fyrstu tveimur dögunum má sjá HÉR.