Dagur 5 kominn og farinn, mikið er þetta fljótt að líða.
Dagskráin í gær var með hefðbundnu sniði í hádeginu fengu þær pylsupasta og salat, nóg af orku til að safna upp fyrir gönguferðina um skóginn sem þær fóru í eftir hádegismatinn.
Í kaffinu var boðið upp á sjónvarpsköku og döðlubrauð. Vinaböndin, litirnir, brennó, íþróttir og allir leikirnir voru á sínum stað.
Í kvöldmat fengu þær blátt skyr við góðar undirtektir, þær höfðu orð á að þetta væri eins og tannkrem en sem betur fer mun betra bæði í maga og bragði 🙂
kvöldvakan var mjög skemmtileg eins og hin kvöldin, hún var löng og fjörug þannig að eftir kvöldkaffi og hugleiðinguna voru þær allar tilbúnar í háttinn og spenntar að fá bænakonuna inn til sín. Sáttar og sælar var fljótlega komin ró á húsið hér í Vindáshlíð.
Dagurinn í dag er veisluldagur og því í nógu að snúast, stelpurnar eru mjög spenntar fyrir honum enda margar sem hafa ekki upplifað hann hér áður.