2 dagur í Vindáshlið byrjaði mjög vel, stelpurnar vöknuðu svolítið snemma og það má örugglega vera vegna mikillar spennu fyrir deginum. Eftir morgunmat og fánahyllingu fengu þær smá fræðslu um Biblíuna, hvað hún skiptist í margar bækur og hvernig hægt er að nota hana sem leiðarvísir í lífinu.
Eftir að hafa borðað dýrindis hakk og spagettí í hádegismat var ferðinni heitið aðeins út fyrir Vindáshlíð, þær fóru í góðan göngutúr og fóru í réttirnar sem eru mjög nálægt hliðinu í skemmtilega leiki.
Þær komu tilbaka svangar og sáttar eftir skemmtilega útiveru og fengu jógúrtköku og kanilstangir, ekki ósáttar við það stelpurnar 🙂
Eftir kaffið er að hluta til frjáls tími, þá er keppt í brennó og íþróttum og þess fyrir utan er í boði að fá bönd til að gera vinabönd sem er mjög vinsælt og við eigum í miklu að snúast við að kenna öllu að gera það sem er bara dásamlegt.
Eftir kvöldmat var kvöldvakan í sínum stað, alltaf mikil gleði á þeim. Á hugleiðingu kvöldsins heyrðu þær um samviskuna og hvaða tilgangi hún þjónar. Þær fengu líka að heyra mjög fallega sögu sem kallast Hvíti silkiborðinn, sú saga fær þessa forstöðkonu alltaf til að tárast vegna þess hve falleg hún er.
Stelpurnar sofnuðu mun fyrr en nóttina áður og þegar ég fór inn til þeirra og bað þær góða nótt var miklu meiri ró yfir þeim þær sofnuðu allar frekar fljótt, enda allar sáttar og sælar eftir frábæran dag í hinni yndislegu Vindáshlíð.