Sælt veri fólkið. Hingað komu 100 vaskir drengir í gærmorgunn. Flokkurinn fer vel af stað. Fínir strákar. Margir hafa verið áður en einnig eru margir að koma í fyrsta sinn eins og oft er með yngri flokkana. Það hefur verið fremur kalt og hvasst síðan þeir komu. Við höfum ekki getað opnað bátana ennþá vegna hvassviðris. Hins vegar er þurrt og þá er skógurinn góður. Mörg tilboð eru í gangi í frjálsa tímanum sem þeir geta valið á milli. Má þar nefna, fótboltamót, frjálsar íþróttir, smíðastofu, kassabíla, borðtennis, billiard, þythokký, íþróttasal, Róbinson Krúsó-flekasmíði ofl. ofl. Á kvöldvökunni í gærkvöld sungu þeir hástöfum og sama er að segja um morgunstundina í morgun. Það ríkir gleði í hópnum og mér líst afar vel á kappana. Myndir koma senn. Njótið þeirra. Athugið að við höfum samband ef eitthvað kemur uppá. Eins er rétt að mæður átti sig á því að þetta er oft erfiðara fyrir ykkur en þá 🙂 , engar áhyggjur. Þið heyrið frá okkur aftur síðar. Verið Guði falin, kær kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson, forstöðumaður.

MYNDIR SMELLIÐ HÉR