Hæ hó jibbí jey og jibbí jey, það er komin 17 júní. Með þessu lagi voru stelpurnar vaktar þann 17 júní. Fyrir hádegi var hefðbundin dagskrá á meðan foringar skipulögðu og gerðu klárt fyrir hátíðardagskránna.
Eftir hádegi var farið í skrúðgöngu sem var í styttra lagi því veðrið var hið besta en í lok skrúðgöngunar var farið upp í kirkju þar sem Fjallkonan tók á móti okkur og sagði nokkur vel valin orð. Því næst voru nokkrara ansi skemmtilegar stöðvar í boði og stelpurnar hvattar til að ganga á milli og prufa allt, þar má nefna nælugerð, andlitsmálningu og hoppukastala. Vinsælasta stöðin var eflaust sú þar sem þær fengu að kasta hveitidrullu í tvo foringja.
Í kaffinu fengur þær afar hátiðlegar kökur, annars vegar köku sem var eins og íslenski fáninn og fyrst sólin faldi sig bakvið skýin þá var sólarkaka líka í boði 🙂
Þann 18 júní tók aftur við hefðbundin dagskrá með biblíulestri þar sem þær lærðu um sköpun Guðs og hvernig við erum allar einstakar því Guð lagði mikið í að skapa hverja og eina. Brennó og íþróttir voru aðsjálfsögðu á sínum stað ásamt vinabandagerð.
Í hádegismat fengu þær pítur sem runnu vel ofan í þær, það var ágætt því eftir hádegismat fóru þær í göngu upp á Sandfell. Sumar fóru alla leið á toppinn, en að ganga Sandfell getur verið pínu erfitt og því fengu þær val um að fara á toppinn eða að ganga hringinn. Þær komu þreyttar og sælar tilbaka og fengu magafylli af Norskri köku og heilsubótasmákökum.
Kvöldvakan og hugleiðingin voru á sínum stað, á hugleiðingunni heyrðu þær söguna um týnda sauðinn. Þegar stelpurnar voru komnar upp í rúm og biðu eftir bænakonunum var þeim komið á óvart með náttfatapartýi sem stóð til rúmlega miðnættis. Að því tilefni fengu þær að sofa klukkutíma lengur í morgun enda voru þær mjög þreyttar eftir langan en afar skemmtilegan dag.