Já það má með sanni segja að það hafir verið líf og fjör hér í Kaldárseli í dag. Dagurinn byrjaði vel og var morgunstundin með sérstökum þjóðhátíðar brag þar sem að allir fengu blöð með textum lagsins Ísland er land þitt og sungu það hástöfum. Eftir hádegi var svo boðið upp á kúluís í vöffluformi og þrautabrautin vígð. Þetta var sérstök þjóðhátíðar þrautabraut með öllu tilheyrandi. Þar komu hoppukastali, kassabílar, sápuhlaup, stultur og sippubönd við sögu svo fátt eitt sé nefnt. Þrautabrautin endaði svo með óvæntum hætti í einu allsherjar vatnsstríði þar sem að foringjarnir fengu að kenna á því en fáir blotnuðu þó meira en sjálfur forstöðumaðurinn. En enginn er verri þó hann vökni eins og gamli maðurinn sagði og fjörið hélt áfram fram eftir degi. Í kaffinu var bökuð dýrindis Kaldársels þjóðhátíðarkaka og eiga ráðskonurnar mikið hrós skilið fyrir þetta augna konfekt sem rann ljúft niður. Eftir kaffið var svo kepptur foringjaleikur í brennó þar sem að foringjarnir öttu kappi við krakkana. Spilaðir voru nokkrir leikir og voru þeir allir hnífjafnir og spennandi. Um kvöldið var svo kvöldvökusalnum umturnað og breytt í diskótek þar sem að dansinn dunaði og farið var í limbó og boðið uppá kandíflos við mikinn fögnuð viðstaddra.

Myndirnar frá þessum frábæra degi eru geysi margar og þær má finna inni á eftirfarandi sló:

http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=130505

Með þjóðhátíðarkveðju,

Arnar Ragnarsson