Í dag, 25. maí er afmælisdagur sr. Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM og KFUK.
Í kvöld kl.20, verður afmælissamkoma í húsi KFUM og KFUK að Holtavegi 28 í Reykjavík í tilefni þess að knattspyrnufélagið Valur fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir. Knattspyrnufélagið Valur á rætur sínar að rekja til þess er unglingspiltar úr KFUM-starfi séra Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM og KFUK á Íslandi, ákváðu að stofna fótboltafélag innan KFUM. Það gerðu þeir með liðsinni séra Friðriks, fyrir öld síðan.
Sannkölluð hátíðardagskrá verður á samkomunni, en meðal annars munu Karlakór KFUM, Valskórinn og Eldri Fóstbræður syngja. Séra Valgeir Ástráðsson og Þorsteinn Haraldsson endurskoðandi segja frá séra Friðriki, og sungnir verða nokkrir af þekktum söngvum þess síðastnefnda. Þá verða sýndar myndir úr starfi Vals og einnig myndir úr starfi KFUM og KFUK á Íslandi. Eftir að dagskrá lýkur verður boðið upp á veitingar og skoðun á minningarstofu um séra Friðrik, sem er í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg.
Stjórnandi kvöldsins verður Helga Vilborg Sigurjónsdóttir.
Allir eru hjartanlega velkomnir, og eru félagar í KFUM og KFUK á Íslandi á öllum aldri sérstaklega hvattir til að fjölmenna. Félagsfólki er bent á að tilvalið er að láta áhugasama vita af afmælissamkomunni og bjóða þeim með sér.