Skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK er nú í fullum gangi og er tekið við skráningum í síma 588-8899 og á vefnum http://skraning.kfum.is Í dag náðist sá ánægjulegi árangur að skráð börn á Hólavatn eru orðin fleiri en sumarið 2010 og ennþá eru rúmar þrjár vikur í að starfið hefst. Hólavatn býður í sumar uppá 7 dvalarflokka og eru fjórir flokkar fullbókaðir en ennþá er hægt að skrá í 3. flokk fyrir 11-13 ára stelpur sem verður dagana 13.-17. júní og í 6. og 7. flokk en það eru ævintýraflokkar fyrir 11-14 ára. Stelpur í 6. flokk dagana 4.-8. júlí og strákar í 7. flokk, 11.-15. júlí.
Ævintýraflokkar bjóða uppá enn meiri fjölbreytni í dagskrá en hefðbundnir dvalaflokkar og verður í ár boðið uppá óvissuferð með rútu þar sem meðal annars verður farið í sund á Hrafnagili. Ævintýraflokkar henta því vel hressum krökkum sem eru búin að fara áður í sumarbúðir og eru tilbúin til að takast á við eitthvað nýtt og spennandi.
Sumarið í sumar verður því það besta í sögu Hólavatns að teknu tilliti til skráningar og er það fimmta árið í röð sem aðsókn eykst á milli ára. Við erum afar stollt og ánægð með svo góða aðsókn og viljum áfram leggja okkur fram um að skapa börnunum öruggt og ánægjulegt umhverfi og höfum að leiðarljósi einkunnarorð Hólavatns en þau eru tillitssemi, kurteisi, samvinna og samhjálp.