Listaflokkur í Ölveri er nú haldinn í þriðja sinni undir styrkri stjórn listakonunnar Margrétar Rósar Harðardóttur sem lokið hefur Mastersgráðu í skapandi samvinnulistum frá Listaháskólanum í Bremen, en við hlið Margrétar munu starfa þaulreyndar og skapandi starfsstúlkur sem hafa áralanga reynslu af sumarbúðastarfinu í Ölveri.
Í flokknum er vitanlega boðið uppá hefðbundna dagskrárliði eins og útivist, íþróttir, kvöldvökur, fræðslustundir og leik, en sérstök áhersla er lögð á listir og skapandi vinnu. Meðal viðfangsefna verða: Stomp og taktþjálfun, dans og freestyle, leiklist og framkoma, hannyrðir og föndur, kökuskreytingar og tónlist, myndlist og skúlptúrgerð.
Markvisst er unnið með jákvæða sjálfsmynd og að virkja og benda á hæfileika hvers og eins.
Listaflokkur verður daganna 9.-12. ágúst en hann er ætlaður 10-12ára stúlkum og kostar 26000 krónur og er að sjálfsögðu allt innifalið, efniskostnaður, hollt og gott fæði, gisting og rútur.