Kaffisala Skógarmanna sem haldin var í dag gekk mjög vel.
Forsvarsmenn Skógarmanna voru aðeins efins um að þátttakan yrði ekki eins góð og vant er vegna þess að sumardagurinn fyrsti bar upp á skírdag þetta árið. Sá efi var ástæðulaus því fjölmargir lögðu leið sína á Holtaveg 28 og keyptu kaffi. Einnig komu margir fyrr um daginn og lögðu til kökur og annað góðgæti. – Skógarmenn eiga sannarlega marga góða að.
Ein fjölskylda tók því þannig að kaffisalan væri í Vatnaskógi og ók þangað en á staðnum eru liðlega 70 krakkar úr Kristilegum skólasamtökum á skólamóti nú um bænadagana. Fjölskyldan greip því alls ekki í tómt því Guðlaug Jökulsdóttir ráðskona á Skólamótinu tók vel á móti þeim og bauð þeim upp kaffi.
Innkoma dagsins var liðlega 430 þús. – frábært framlag í nýbyggingu Vatnaskógar.
Hafið öll hjartans þakkir fyrir frábært framlag og þátttöku sem gerðu þennan dag svona árangursríkan.
Stórtónleikar verða sunnudaginn 8. maí einnig til stuðnings nýbyggingu Vatnaskógar.