Sumarið 2011 nálgast óðfluga með hækkandi sól, og mikil stemmning er fyrir sumarbúðastarfi KFUM og KFUK. Undirbúningur fyrir starfsemina er í fullum gangi og mikil tilhlökkun ríkir fyrir sumrinu sem er framundan.
Skráning í sumarbúðirnar hefur staðið yfir í eina viku, og hófst með Vorhátíð síðasta laugardag. Fjölmörg börn hafa nú þegar verið skráð í dvalarflokka í Ölveri, Vatnaskógi, Hólavatni, Vindáshlíð og Kaldárseli.
Fullt er orðið í nokkra dvalarflokka (en byrjað er að skrá á biðlista í þá). Hægt er að ganga frá skráningu á internetinu á http://skraning.kfum.is/ , í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK að Holtavegi 28 og í síma 588-8899.
Á hverju ári dvelja mörg hundruð barna í sumarbúðum KFUM og KFUK á Íslandi. Áhersla er lögð á að bjóða þeim upp á uppbyggilega og skemmtilega sumardvöl, sem er gott veganesti fyrir lífið.
Allar fimm sumarbúðir félagsins eru staðsettar í fallegu umhverfi, þar sem tækifæri til útiveru og alls kyns uppákoma eru óteljandi.
Nánari upplýsingar um sumarbúðirnar má finna HÉR og einnig er velkomið að hafa samband við Þjónustumiðstöð félagsins símleiðis (s. 588-8899) ef frekari fyrirspurnir vakna.