Febrúarmót YD KFUM og KFUK og TTT-starfs þjóðkirkjunnar á Norðurlandi fór fram á Hrafnagili dagana 18.-19. febrúar s.l. Yfirskrift mótsins var "Daginn í dag, gerði Drottinn Guð" og voru 62 þátttakendur úr deildarstarfinu frá Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri en heildarfjöldi á mótinu var um 110 börn. Aðstaðan á Hrafnagili er mjög góð og sundlaugin, íþróttasalurinn og gervigrasvöllurinn komu að góðum notum og ekki skemmdi það fyrir hve vel var staðið að matseldinni í mötuneyti skólans.
Á laugardagsmorgninum var samverustund þar sem við stöldruðum við og veltum því fyrir okkur hve margt það er sem við getum verið þakklát fyrir á hverjum degi. Krakkarnir voru sjö saman í hóp og í sameiningu skrifuðu þau, hvert frá sínu brjósti, eitt atriði fyrir hvern dag vikunnar sem þau eru þakklát fyrir. Lífið, fjölskyldan. tómstundir, skólinn, maturinn, vinirnir, nammidagar, og KFUM og KFUK voru meðal þess sem þau nefndu hvað oftast og svo var fjölmargt annað sem hvert og eitt þeirra hafði fram að færa í upptalningu á því sem við getum verið þakklát fyrir.
Við í KFUM og KFUK þökkum Guði fyrir öll þessi dásamlegu börn og fyrir það tækifæri að mega vera með þeim í leik og starfi og kynnast þeim um leið og við fáum tækifæri til að segja þeim frá Jesú og dásemdarverkum hans. Guð vill vera með okkur alla daga og fylla líf okkar af gjöfum sem við megum vera þakklát fyrir. Hann vill líka styðja við okkur á erfiðum dögum þegar við eigum erfitt með að koma auga á þá hluti sem við getum þakkað fyrir.
Að sjálfsögðu voru teknar fjölmargar myndir um helgina og hér á vefnum má skoða nokkrar slíkar.