Fyrir síðustu jól kom út nýi og skemmtilegi DVD diskurinn ,,Daginn í dag – Sunnudagaskólinn á DVD“ frá Skálholtsútgáfunni. Á disknum eru fjórir vandaðir, íslenskir þættir sem miðla sígildum boðskap kristinnar trúar á nýjan og ferskan hátt.
Nú hafa yfir 100 eintök af ,,Daginn í dag“ selst í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK við Holtaveg 28, Reykjavík, og rennur ágóði þeirra til skálasjóða ,,minni" sumarbúða KFUM og KFUK, þ.e. Kaldársels, Hólavatns og Ölvers.
Diskurinn er fáanlegur í Þjónustumiðstöðinni á Holtavegi og kostar kr. 2490, sem er lægra verð en almennt gengur og gerist í öðrum verslunum.
Efnið á ,,Daginn í dag“ er hugsað sem stuðningur við trúfræðslu og bænalíf barna heima fyrir, og jafnframt sem stuðningur við barnastarf kirkjunnar.
Tuttugu sunnudagaskólalög og barnasálmar eru á disknum, og fjórar dæmisögur Jesú eru sagðar á skemmtilegan máta. Diskurinn er tilvalinn fyrir börn á öllum aldri.
Yfir hundrað manns komu að gerð disksins, þar á meðal margt félagsfólk úr KFUM og KFUK. Þorleifur Einarsson leiklistarnemi, leiðtogi hjá KFUM og KFUK og sunnudagaskólakennari er leikstjóri efnisins. Prestar Lindakirkju og forstöðumenn í sumarbúðunum í Vatnaskógi síðastliðin sumur, þeir Guðni Már Harðarson og Guðmundur Karl Brynjarsson skrifuðu handritið að þáttunum ásamt Þorleifi. Aðalhlutverk eru í höndum Hafdísar Maríu Matsdóttur, leiðtoga í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK og Jóels Inga Sæmundssonar.
Félagsfólk KFUM og KFUK er hvatt til að kaupa diskinn í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Holtavegi og styðja þannig við starfsemi sumarbúða félagsins.