Flest börn á Íslandi búa við öruggt og friðsælt umhverfi, heima, í skóla, leik- og frístundastarfi. Því miður er ekki hægt að segja að þetta eigi við um öll börn hér á landi. Það er töluverður fjöldi barna sem á erfitt og býr við vanrækslu eða eru beitt ofbeldi – líkamlegu, kynferðislegu og eða andlegu.
Það er því mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og unglingum þekki einkenni ofbeldis og vanrækslu gagnvart börnum og hvernig eigi að bregðast við ef grunur vaknar um að slíkt eigi sér stað.
Nú hefur Æskulýðsvettvangurinn í samvinnu við Mennta – og menningarmálaráðuneytið farið af stað með röð af námskeiðum sem kallast Verndum þau. Æskulýðsvettvangurinn er samstarf vettvangur Bandalags Íslenskra Skáta (BÍS) KFUM og KFUK á Íslandi (KFUM og KFUK) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).
Námskeiðið Verndum þau er ætlað öllum þeim sem koma að uppeldi og umönnun barna og ungmenna. Námskeiðið eru byggt á efni bókarinnar Verndum þau. Það eru höfundar bókarinnar, Verndum þau, sem stýra námskeiðinu, þær Ólöf Ásta Farestveit sem er uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir sem er með B.A. í sálfræði. Þær starfa báðar í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.
Verndum þau – námskeið verður haldið í húsi KFUM og KFUK í Sunnuhlíð 12 á Akureyri þriðjudaginn 22. febrúar kl.17-19:30 og er öllum opið að kostnaðarlausu.
Skráning á námskeiðið fer fram hjá Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 588-8899 eða á netfanginu namskeid@kfum.is .