Fjörugur hópur fólks á öllum aldri var samankominn á leiðtoganámskeiði Kirkjunnar og KFUM og KFUK sem haldið var síðast liðinn laugardag í Grensáskirkju. Yfirskrift námskeiðsins var „Sjálfsmyndin og Samfélag“. Gígja Grétarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur, fjallaði um sjálfsmynd unglinga og áhrifavalda í lífi þeirra, með sérstakri áherslu á kynlíf og kynímynd. Halla Jónsdóttir, aðjúnkt, fræddi okkur um hvernig best sé að miðla til unglinga þeirri jákvæðu sjálfsmynd sem trúin á Jesú getur fært okkur.
Einnig var boðið upp á fræðslustundir um stráka- og stelpumenningu, kvikmyndirnar sem gerðar hafa verið um Narníu og hvernig við getum byggt okkur upp með Biblíunni. Endapunktur námskeiðsins var síðan mögnuð U2 messa þar sem hljómsveitin Labbakútarnir spiluðu U2 lög af mikilli snilld. Þetta var velheppnað námskeið með glæsilegum hópi leiðtoga í kristilegu æskulýðsstarfi.