Undirbúningur fyrir landsmót unglingadeilda KFUM og KFUK á Íslandi stendur nú sem hæst. Mótið mun fara fram dagana 18.-20. mars n.k. og að venju verður það í Vatnaskógi. Yfirskrift mótsins er fengin úr fyrra Korintubréfi 13. kafla og 8. versi en þar segir: "Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi." Vonir standa til að heildarfjöldi þátttakenda verði um 200 talsins en alls eru starfandi 17 unglingadeildir víðsvegar um landið og að sjálfsögðu er gert ráð fyrir þátttakendum frá öllum þessum deildum. Mótsgjaldinu er stillt í hóf og hefur ekki hækkað á milli ára. Fyrir aðeins 9.000 krónur fá unglingarnir rútuferð, gistingu, mat og metnaðarfulla dagskrá sem nær hámarki á laugardagskvöldinu þar sem kvöldvakan verður í félagsheimilinu á Hlöðum þar sem aðstaðan verður eins og best verður á kosið fyrir hljómsveit og stóran hóp af hressum unglingum. Allar frekari upplýsingar um landsmótið má nálgast hjá mótsstjórum, Kristnýju Rós og Þór Bínó, æskulýðsfulltrúum KFUM og KFUK á Íslandi.

Kynningarmyndband fyrir landsmót 2011