Nú þegar nýtt ár er gengið í garð, er dagskrá fullorðinsstarfs KFUM og KFUK á Íslandi að hefjast eftir jólaleyfi.
Dagskráin er bæði fjölbreytt og spennandi, og hefur formlega göngu sína á nýju ári með sunnudagssamkomu næsta sunnudag, 9. janúar á Holtavegi 28 í Reykjavík.
Yfirskrift samkomunnar 9. janúar er ,,Þrá eftir Guði?“, og ræðumaður kvöldsins er Ragnhildur Ásgeirsdóttir. Hljómsveitin Tilviljun?, sem skipuð er ungu og efnilegu tónlistarfólki innan KFUM og KFUK sér um skemmtilegan og líflegan tónlistarflutning. Eftir að samkomu lýkur verður sælgætissala KSS opnuð, og gestir eru hvattir til að staldra við og eiga saman góða stund. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Sunnudagssamkomur eru haldnar öll sunnudagskvöld yfir vetrarmánuði í húsi KFUM og KFUK, Holtavegi 28 kl. 20. Á þeim gefst frábært tækifæri til að hefja hverja viku á góðan og uppbyggilegan hátt. Fjöldi fólks kemur að undirbúningi hverrar samkomu, meðal annars hvað varðar skipulagningu, ræðumennsku, tónlistarflutning, veitingar, tæknimál og fleira.
Í næstu viku hefja AD-fundir KFUM og KFUK (fundir Aðaldeilda) göngu sína að nýju eftir jólaleyfi. Þriðjudaginn 11. janúar verður fyrsti AD KFUK – fundur nýs árs, og á fimmtudaginn 13. janúar verður fyrsti fundur hjá AD KFUM.
Nánari upplýsingar um fullorðinsstarf KFUM og KFUK á Íslandi má sjá á eftirfarandi slóð: http://www.kfum.is/ad-og-fjolskyldustarf/